Um okkur
Þessi síða er rekin af SAMFOK og var sett á laggirnar vorið 2019.
Foreldrafélög grunnskóla í Breiðholti áttu frumkvæði að gerð síðunnar og unnu efni hennar. Samtímis útbjuggu foreldrafélögin segul með leiðarljósum um skjátíma sem dreift var í til allra barna í grunn- og leikskólum í Reykjavík.
Gylfi Guðmundsson vann upphaflegu leiðarljósin í samvinnu við fagfólk en síðan tók foreldrahópurinn við sem var skipaður: Aðalheiði Ingimundardóttur, Önnu Sif Jónsdóttur, Örnu Bech, Guðmundi Magnúsi Daðasyni, Ólafi Gylfasyni og Valdísi Veru Einarsdóttur. Á seinni stigum var verkefnið einnig unnið í samvinnu við Sigríði Björk Einarsdóttur, framkvæmdastjóra SAMFOK.
Á tenglasíðunni má finna þær heimildir sem nýttar voru við gerð síðunnar. Efni frá Heilsuveru nýttist mjög vel en einnig frá Heimili og skóla. Auk þess eru tenglar inn á ýmsar upplýsingar og ítarefni.
Í nokkur ár hefur segull um útivistartíma borist inn á heimili landsmanna og fest í sessi reglur um útivistartíma barna. Við sjáum fyrir okkur að segull um skjátíma muni skapa umræður innan heimilis um æskilega skjáhegðun og þannig, smátt og smátt, festa í sessi reglur hvers og eins heimilis um skjátíma. Segullinn er ekki töfralausn heldur tæki sem fjölskyldur geta notað til að auka notkun og mynda ramma utan um skjánotkun allra í fjölskyldunni.
Foreldrafélög í Breiðholti og skólastjórnendur hafa um árabil átt mjög gott samstarf um ýmis málefni sem hefur stutt vel við skólasamfélag í hverfinu. Fyrir um þremur árum kom upp sú hugmynd að gera segul um skjátíma þar sem skjátímanotkun er stöðugt að aukast og við foreldrar þurfum að kunna að umgangast þessa nýju tækni og vera börnunum fyrirmynd. Segullinn var hugsaður fyrir öll heimili grunnskólabarna í Breiðholti og haustið 2018 var unnið af krafti að hugmyndafræðinni, hönnun segulsins og fjármögnun verkefnisins.
Fljótlega áttuðum við okkur á að skjánotkun er það margþætt að skilaboðin kæmust ekki öll á einn segul. Við ákváðum að gera síðu sem myndi innihalda frekari upplýsingar um skjátíma en einnig fundum við að þörfin innan heimilanna var brýn. Foreldrar eru margir hverjir á byrjunarreit þegar kemur að því að setja mörk um skjátíma og vantar hjálpartæki. Efni segulsins er miðað að foreldrum en að hann væri einnig forvitnilegur fyrir börn og því var mikið lagt í að teikningar á segli væru þannig að börn gætu séð sjálf sig í myndunum, stelpuna sem er í 1. – 4. bekk vantar tönn og strákurinn í 5. – 7. bekk er í hettupeysu.
Sótt var um fjármagn í ýmsa sjóði og til fyrirtækja. Byko og Beirsdorf sýndu mikinn áhuga sem virkaði sem vítamínsprauta á hópinn. Það var orðið ljóst að verkefnið yrði klárað fyrir öll grunnskólabörn í Breiðholti en þá barst fyrirspurn frá starfsmönnum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um hvar verkefnið væri statt. Starfsmenn borgarinnar fengu að sjá hönnun segulsins og hugmyndafræðina að baki verkefninu. Í kjölfarið var óskað eftir að verkefnið yrði stækkað þannig að öll grunnskólabörn í Reykjavík, ásamt leikskólabörnum fengu segul. Einnig var óskað eftir því að segull yrði gerður á ensku, pólsku og filipísku. Þetta litla Breiðholtsverkefni sprakk því út og búið er að framleiða 30.000 segla á fjórum tungumálum sem dreift var á öll barna heimili í borginni.
Foreldrafélögin höfðu úrvalsfólks sér til aðstoða við framkvæmd þessa verkefnis. Magnús Grétarsson hjá Ráðandi ehf. hannaði segulinn, Anna Sigrún Guðmundsdóttir hjá Ég elska Breiðholt hannaði logó foreldrafélagana í Breiðholti, Sunneva Snorradóttir teiknaði barnamyndir á bæði segul og heimasíðu, Hrafn Margeirsson sá um dreifingu á seglunum til leik- og grunnskóla og Ólafur Örn Jósepsson setti uppheimasíðuna.