Hreyfing

Heilbrigð sál í hraustum líkama. Góð andleg heilsa eykur líkur á að við nennum að hreyfa okkur. Á sama hátt líður okkur oftast betur andlega eftir hreyfingu. Andleg og líkamleg heilsa haldast því gjarnan í hendur. Börn sem alast upp við hreyfingu eru líklegri til að hreyfa sig á fullorðinsárunum. Því er líklegra að þeim einstaklingum líði almennt betur.

Mikilvægt er að varðveita hreyfigleði barna. Ástunda reglulega hreyfingu og efla styrk, úthald og liðleika. Forðast ætti að þvinga börn til að stunda tiltekna íþrótt. Góð regla er að leyfa börnum að prófa sig áfram í mismunandi íþróttum og styðja við og hvetja til iðkunar í þeirri íþrótt sem barnið sjálft hefur gaman af.

Skjánotkun og hreyfing fer sjaldnast saman. Bæði börn og fullorðnir festast gjarnan í sömu stellingunni við skjánotkun. Staða höfuðs verður álút og höfuðið þungt. Hálsvöðvar verða gjarnan fyrir of miklu álagi. Axlir verða stífar og fingur og handahreyfingar einhæfar. Óhóflegur skjátími getur haft líkamlegar afleiðingar.

Af þessum sökum er mikilvægt að halda samfelldum skjátíma í lágmarki. Gott er að taka reglulega hlé frá skjánum, ganga aðeins um og gera teygjuæfingar. Sérstaka áherslu ætti leggja á að liðka axlir og háls. Einnig ætti að huga að líkamsstöðunni sjálfri við skjánotkun. Að sitja rétt, huga að sjónlínu, handstöðu o.s.frv. skiptir máli til að lágmarka álag á líkamann. Þá getur verið mjög gagnlegt að ýmist sitja eða standa þegar vinna þarf við skjái.