Skjátími

Skjátími er sá tími sem við eyðum á hverjum degi í að horfa á skjá. Fyrst og fremst er átt við snjallsíma, spjaldtölvur, leikjatölvur, borðtölvur, fartölvur og sjónvarp. Erfitt getur verið að mæla nákvæmlega skjátíma einstaklings yfir daginn og einnig skiptir máli hvernig skjátíma er varið. Það er t.d. munur á að horfa á heimildarmynd í sjónvarpi og að spila tölvuleik í snjalltæki. Einnig geta einstaklingsbundnir þættir skipt máli sem taka þarf tillit til.

Hér eru sett fram leiðarljós um heildarskjátíma utan skólatíma. Leiðarljósin eru sett fram sem æskilegur hámarkstími en ekki tími sem nauðsynlegt er að uppfylla.

Skjátími á sér andstæðu – skjálaus tími. Í annríki dagsins er ekki eingöngu nauðsynlegt að fylgjast með skjátíma, heldur er ekki síður mikilvægt að vera meðvituð um að hafa skjálausan tíma.

Skjáhegðun nær yfir allt sem við gerum með tæki, þ.e. hvaða tæki við notum, hvernig og hvar. Jákvæð skjáhegðun getur verið margskonar, t.d. áhorf fræðsluþátta, lestur til gagns á netinu eða þroskandi tölvuleikir. Neikvæð skjáhegðun getur birst í ýmsum myndum. Má þar nefna að geta ekki verið án snjallsíma og þurfa reglulega að athuga eitthvað í honum, virða ekki aldurstakmörk og að ástunda neikvæð samskipti og athugasemdir á samfélagsmiðlum.

Netið gleymir engu. Alltaf þegar við tengjumst netinu skiljum við eftir okkur netspor. Líkja má netsporum við fingraför og fótspor. Sama hvað við reynum er erfitt að dylja eða eyða netsporum að fullu. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að við búum líka til netspor fyrir aðra. Það er t.d. orðið algengt að fyrstu netspor einstaklings verði til strax á fósturstigi þegar foreldrar setja fósturmyndir á samfélagsmiðla. 

Netheimar og mannheimar eru ekki tveir aðskildir heimar. Þetta er einn og sami veruleikinn. Þessu ætti sérstaklega að huga að ásamfélagsmiðlum. Þar ættum við að koma fram eins og við myndum gera augliti til auglitis við aðrar manneskjur. Ástunda kurteisi og tillitssemi. Þar að auki er nauðsynlegt að hafa almenn landslög í huga eins og persónuverndarlög og að virða friðhelgi einkalífs. 

Skjáhegðun nær þó ekki eingöngu til þess sem við gerum á netinu og samfélagsmiðlum. Hún lýsir því líka hvar og hvenær við notum tækin. Alltof algengt er að við látum tækin stjórna lífi okkar. Við ráðum ferðinni og þurfum að forðast að verða ekki net- og tækjafíkn að bráð. Það er hægt að lifa góðu lífi án þess að snjallsíminn sé stöðugt við hönd. Á almenningsstöðum ættum við að gæta þess að tækin okkar valdi ekki óþarfa áreiti, t.d. með stöðugum hljóðum. Heima við er góð regla að ákveða skjálausa staði og tíma, t.d.svefnherbergi og matmálstíma. Þegar við erum í félagsskap við annað fólk myndu  flestir telja það ókurteisi að hanga í símanum í stað þess að gefa sig að félagskapnum.

Aldurstakmarkanir á samfélagsmiðlum, tölvuleikjum,sjónvarpsþáttum og kvikmyndum eru settar af ýmsum ástæðu. Foreldrar ættu að virða aldurstakmarkanir og gott er að vera með ungum börnum þegar þau horfa á myndir, spila tölvuleiki og skoða netið fyrstu árin svo þau lendi ekki í að upplifa efni sem hæfir ekki þroska þeirra og aldri. 

Dæmi um jákvæða skjáhegðun:

  • Styðjum við áhugavert, lærdómsríkt og uppbyggilegt skjáefni
  • Slökkvum á tækjum sem ekki eru í notkun
  • Gætum þess að notkun okkar trufli ekki aðra
  • Það má svara skilaboðum síðar
  • Sýnum virðingu í mannlegum samskiptum og komum fram af kurteisi
  • Hugum að netöryggi
  • Styðjum við áhugavert, lærdómsríkt og uppbyggilegt skjáefni
  • Fáum alltaf leyfi áður en við dreifum myndum og persónulegum upplýsingum um aðra
  • Virðum aldurstakmarkanir